(no subject)

Dec 27, 2007 06:02


Elín er tuttuguogfimm ára.
Elín er átta ára.
Elín er sautján ára.

Elín býr í kjallaraíbúð í miðbæ Reykjavíkur. Hún er í Háskólanum að læra frönsku og eyðir þess vegna löngum stundum í að reykja sígarettur, mála augabrúnirnar á sér svartar, og hlusta á Edith Piaf. Lífið er ógurlegt, en þannig á það líka að vera, eða hvað? Stundum er það bara ógurlegt vegna þess að Elín vill að það sé einmitt þannig. En einn daginn hittir hún Jóhönnu, og þá verður lífið í alvörunni ógurlegt.

Elín býr með mömmu í Félóblokk. Á daginn á Elín að læra margföldunartöfluna en það er erfitt þegar ullarpeysan stingur eða fyrsti snjór vetrarins fellur til jarðar eða Ömmukisa er alveg að fara að gjóta. Ömmukisa gýtur þremur kettlingum sama dag og Ragnar flytur inn í mömmuherbergi og Jóhanna flytur inn í Elínarherbergi en einn er vanskapaður og annar verður aldrei nógu gamall til að opna augun.

Elín býr undir súð í Vesturbænum. Hinumegin við vegginn búa mamma og Ragnar og þegar þau öskra hvað hæst lætur Elín sem þau séu bara venjulegir nágrannar sem koma henni ekki við. En Jóhanna er bara tólf ára og þegar hún verður hrædd skríður hún undir sængina hjá Elínu og nagar My Little Pony koddaverið sem Elín er löngu vaxin upp úr en notar samt.

Elín veit ekki hver þessi stelpa er. En það er eitthvað kunnuglegt við ljósrauðar krullurnar og hvernig hún gengur hikandi í áttina að Elínu - eittoghálftskref stopp, eittoghálftskrep stopp.

Elín þolir ekki þessa stelpu. Það er nógu óþolandi að þurfa að deila herbergi með smábarni, en að þurfa að deila ömmu sinni og kettlingnum sem lifði og kókópöffsinu á sunnudögum er hreint út sagt hræðilegt. En Jóhönnu er alveg sama hvað Elín er leiðinleg, hún er alltaf tilbúin að gefa stjúpsystur sinni klístrað ópal og klístruð knús, og stundum treður hún klístruðum tám undir Elínarsæng og heimtar sögu. Og sögum er Elín alltaf tilbúin að deila.

Elín elskar þessa stelpu. Tærnar eru löngu hættar að vera klístraðar, en undir Elínarsæng rata þær samt enn þegar veðrið er vont eða foreldrar þeirra eru búnir með hálfri ginflösku of mikið.

En eitt kvöldið - eitt kvöldið rata Jóhönnutær ekki undir Elínarsæng. Í staðinn flækjast þær yfir í næsta herbergi því Jóhönnu langar að bjóða Ragnari og Elínarmömmu á bekkjarskemmtun í næstu viku. En Elínarmamma liggur hreyfingarlaus á gólfinu og ginflaskan er tóm og Ragnar er hvergi sjáanlegur og á náttborðinu er tómt töfluglas. Jóhanna öskrar og Elín öskrar og mamma öskrar ekki. Á spítalanum öskrar Ragnar og hann öskrarogöskrarogöskrar og Elín verður að hlaupa burt. Þegar hún kemur aftur er íbúðin tóm. Enginn Ragnar og ekkert gin og engar Jóhönnutær. Og engin mamma, bara amma og kettlingur sem er löngu orðinn gamalt og virðulegt fress.

Ljósrauðhærða stelpan brosir til Elínar, og allt í einu verður lífið ógurlegt aftur. En bara í örstutta stund. Því Elín brosir á móti, og þó þær séu báðar orðnar of stórar treður Jóhanna köldum tám undir Elínarsæng seinna um kvöldið, og Elín býður upp á gin í tilefni dagsins.

elín, íslenska, writing

Previous post Next post
Up