Stálið stendur við orð sín ... eftir bestu getu

Jan 18, 2009 09:38

Jæja, þá er kominn tími til að útskýra hver staðan er eða virðist vera á heilsufari mínu.

Í stuttu máli má segja að læknarnir eru alveg jafn hissa og ég.

Fólk fær venjulega ekki sjóntaugarbólgu tvisvar á fáum árum á fullorðinsárum án þess að vera með einhver önnur einkenni MS, alveg sama hversu hvítt, keltneskt eða kvenkyns það er. Svo að taugalæknarnir eru búnir að pota dóti í ilina á mér, pota pinna eftir fótleggjunum, banka í hnén mín og láta mig hoppa á öðrum fæti. Þeir dáðust líka að því hversu háar ristar ég er með. Þeir fundu ekkert óeðlilegt.

Einnig voru teknar ýmsar myndir af heilanum og mænunni á mér. Fyrir utan augljósa bólgu í kringum sjóntaugina lítur allt gjörsamlega eðlilega út. Reyndar komumst við að því að ég er með brjósklos í mjóbakinu sem lýsir sér í... algjörum skorti af einkennum í mínu tilfelli. Mér skilst að hreyfing sé góð gegn brjósklosi svo að ég hef engar áhyggjur af því. Um leið og ég hef heilsu til ætla ég hvort eð er að fara aftur í ræktina, etc.

Ég bíð ennþá eftir niðurstöðum úr síðustu rannsókninni. Mænuvökvi úr mér var sendur í rannsókn til Svíþjóðar og niðurstöðurnar áttu að koma rétt eftir áramót... Ég þarf að fara að hringja í læknana til að athuga afhverju ég hef ekkert heyrt. Ég veit ekki hvað þessi rannsókn á að geta sagt, en ef hún kemur eðlilega út get ég slakað á í bili.

Svona fyrir utan það að hægra augað hefur ekkert skánað í viku eða svo. Ég þarf líka að spyrja læknana út í það því að mig minnir að þetta hafi batnað hraðar síðast.

Vicar in a Tutu - The Smiths

Previous post Next post
Up