Clapton

Aug 09, 2008 09:09

Þetta voru leiðinlegustu stórtónleikar sem ég hef farið á.

Mér leið líkamlega illa allan tímann út af hitanum. Ef ég hefði ekki verið nýbúin að sofa í 14 klukkutíma hefði liðið yfir mig, en í staðinn fékk ég að dúsa við of mikla meðvitund, sitjandi á gólfinu í því sem jaðraði við hitaóráð án veikinda. Ég hellti reglulega á mig vatni, en ekkert dugði.

Allan tímann var ég að bíða eftir lagi sem ég þekkti - eitthvað gott og sígilt með Cream, eða þá Layla. Hvort sem er hefði hresst mig við, því að karlinn er ennþá sprækur og syngur og spilar eins og engill... En það eina sem ég þekkti almennilega var Wonderful Tonight, sem er sæmilegt en aðeins of mömmulegt fyrir minn smekk.

Þetta var blúsdjamm í tæpa 2 klukkutíma. Sömu tónarnir aftur og aftur.

Ellen Kristjánsdóttir var ekki skárri. Hún lofaði góðu, með Pétur Ben sér við hlið, en spilaði bara óútgefna tónlist og svo söng hún Angels með bróður sínum. Angels var alveg laglegt eins og venjulega. En hverskonar græðgis-markaðsetning er það að spila nær einungis óútgefna tónlist við svona stórt tilefni? Er ekki tilgangurinn með upphitun sá að koma fólki í stuð?

Og afhverju var myndavélin svona hrædd við svarta náungann sem ég held að hafi verið á bassa?

Ég fékk meira úr nokkrum sekúndum af lágt stilltum Zeppelin í útvarpinu hennar Rósu frænku á leiðinni heim.

Ekki segja pabba - hann bauð mér.
Previous post Next post
Up