(no subject)

Jan 29, 2008 00:32


Elín kunni ekki reglur leikvallarins. Hún vissi að það voru aðeins elstu og ógurlegustu strákarnir sem máttu klifra eins og þá lysti í kastalanum, en hún vissi ekki hvers vegna. Hún hafði oft klifrað þar sjálf, en það var á laugardögum. Á laugardögum giltu aðrar reglur, svo mikið skildi hún. Í dag var miðvikudagur, og þess vegna stóð hún og horfði löngunaraugum á Kristján þjóta niður rennibrautina.

Á laugardögum voru Elín og Kristján vinir. Áður en Elín varð leikskólastúlka fór hún oft með mömmu út á leikvöll á laugardögum. Elín gat auðveldlega komist upp í kastalann sjálf, og jafnvel þó henni þætti ennþá öruggara að láta mömmu taka á móti sér í rennibrautinni var mamma vön að hlæja og segja að svona stórar stelpur væru svo sannarlega tilbúnar til að byrja á leikskóla. Suma laugardaga kom Kristján á leikvöllinn í fylgd stóra bróður síns. Þá breyttist kastalinn í risastórt virki umkringt krókódílum og stóri bróðirinn varð allra hættulegasti krókódíllinn. Einu sinni komst hann alla leið upp rennibrautina og náði taki á öðrum fætinum á Elínu. Hún sparkaði og æpti, en þetta var sterkur krókódíll og hún losnaði ekki fyrr en Kristján kom henni til bjargar.

Í dag var ekki laugardagur. Það var mánudagur, og þennan mánudag var Elín loksins orðin leikskólastúlka. Allan morgunin beið hún óþreyjufull eftir útiverunni. Hún flýtti sér eins og hún gat í útifötin, en þegar maður er þriggja ára eiga ullarpeysuermar það til að flækjast fyrir manni. Eldri börnin höfðu margra ára æfingu í að hneppa og renna, og Elínu fannst líða heil eilífð frá því að hún sá Kristján hlaupa út og þar til hún var búin að leysa úr ermaflækjunni. Þegar Elín komst loks út á leikvöllinn tók hún stefnuna beint á kastalann. Hún brosti til Kristjáns og gerði sig líklega til að leggja af stað upp stigann.

„Hey þú, stelpa“, sagði stór strákur sem vantaði í aðra framtönnina. „Hvað ertu að gera?“
Elín hikaði og benti síðan á Kristján. „Sko, hann er vinur minn og ég ætla að berjast við krókódílana“, sagði hún.
Tannlausi strákurinn gretti sig framan í Kristján. „Ertu að leika við stelpur?“
„Ne-hei! Þessi stelpa er bara alltaf að elta mig“, svaraði Kristján snöggt og sneri sér svo að Elínu. „Við erum að sigla til Afríku, og stelpur geta ekki verið sjómenn. Farðu bara að moka eða eitthvað“.

Þannig lærði Elín fyrstu regluna: Stelpur mega ekki leika sér í kastalanum.

elín, íslenska, writing

Previous post Next post
Up