Dec 22, 2019 21:30
A story by Gyrðir Elíasson that I read back in summer, in his book Steintré (I think) - thought it was quite touching and wanted to keep it:
Ég er barn í hvítu húsi nálægt sjónum, og í garðinum við húsið er kerfilrunnur sem angar þessa sumardaga og þegar ég hef farið út stundum á morgnana til að bíta í kerfilstilkana hefur lakkrísbragðið gert sólina enn bjartari. Ég er barn í hvítu húsi nálægt sjónum.
Niðri á tanganum er rauður skúr og þar er gert við bíla og flugdreka. Stóru dyrnar þar eru alltaf opnar, líka á nóttunni þegar ég sef og þunga sængin hans pabba míns yfir mér. Hann pabbi, ég hef ekki séð hann pabba svo lengi, ekki í marga daga. Ég hef farið út í garðinn og bitið í kerfilstönglana og hugsað að kannski kæmi pabbi þegar ég fyndi lakkrísbragðið, en hann hefur ekki komið, og ekkert hefur gerst nema sólin hefur orðið enn bjartari.
Við runnann er svolítið moldarbeð, og þangað fer ég stundum með fötu og skóflu og róta en mamma segir alltaf að þetta megi ég ekki gera því hún er búin að setja þarna niður kartöflur og vill ekki láta róta þeim upp í leikfangafötu.
“En þú mátt vera með fötuna þína í haust þegar við tökum upp úr garðinum,” segir hún við mig. Svo tekur hún af mér fötuna og skófluna og sólin fer.
Það var í gær sem við mamma fórum í bílnum að garði þar sem voru margir krossar. Við fórum inn í garðinn og námum staðar við einn krossinn. Á honum voru starfir, en ég er ekki búinn að læra að lesa og horfði bara á moldina við krossinn, hún var dökk og ég hugsaði að skóflan hefði átt að vera með. En mamma stóð þarna í golunni og horfði upp í himininn. Hún sagði ekkert við mig nema að ég ætti alltaf að klappa svona trékrossum, og þessi kross ætti að vera vinur minn.
En mig langar að eiga kött fyrir vin.
En mig langar að eiga hund fyrir vin.
En mig langar ekki að eiga kross fyrir vin, mamma, ég vil það ekki.
Þá sagði hún að við skyldum koma heim, og strauk sér um andlitið á kápuerminni. Ég spurði hvort hún væri að gráta en þá hló hún og golan ýfði hárið hennar.
“Sjáðu mosann þarna,” sagði hún og benti mér á steinsteyptan vegginn rétt hjá krossinum sem hún vildi að væri vinur minn.
“Sjáðu mosann þarna.”
Og ég er hérna í húsina hvíta nálægt sjónum. Á snúrunum í garðinum blakta hvít lök, og verða enn hvítari í sólinni. Og það glampar á sjóinn þar sem allir ljótu og fallegu fiskarnir synda. Langt í burtu sér í fjall. Þar er drekinn sem getur flogið. Og stundum fer drekinn á spítala - þá fer hann á rauða skúrinn með stóru dyrunum sem alltaf eru opnar út í nóttina og daginn. Mamma veit allt um þennan dreka. Það eru þannig flugdrekar sem gert er við í rauða skúrnum.
Þar sem ég horfi út, eru steinar í gluggakistunni hjá mér. Allavega litir steinar. Ég velti steinunum í gluggakistunni og tala við þá og þeir svara með muldri og það er svo mikil dimma í þessu muldri að ég verð dálítið smeykur og legg steinana frá mér. Í eldhúsinu er mamma að hita kakó. Hún er að hita kakó handa mér, hún mamma er alltaf að hita kakó, og ef hún er ekki að hita kakó þá hitar hún kaffi handa honum gamla afa með rosalegu gleraugun.
“Af hverju ertu með svona stór gleraugu, afi?” spurði ég hann einusinni þegar hann var í heimsókn. Hann leit á mig og síðan á mömmu og eftir það hristi hann höfuðið og brosti lengi.
“Þú segir nokkuð, rauðhöttur minn,” sagði hann svo. Þegar hann sagði þetta féll skrýtin birta inn um eldhúsgluggann og gleraugun hans voru stærri en nokkurntíma áður og ég varð einhvernveginn dapur innan í mér í birtunni allt í einu og fór inn í svefnherbergi og lagði mig í rúmið hennar mömmu og hans pabba, sem mamma er bara í núna og svo ég þegar ég sofna á kvöldin.
Hvítt hús nálægt sjónum, og bráðum hverfur dagurinn.
icelandic,
stories