Byltingin nálgast, félagar

Sep 29, 2008 15:05


75 % þjóðnýting ríkisins á Glitni vekur upp áleitnar spurningar og varpar skýru ljósi á ýmsa vankanta á einkavæðingar-, og yfir höfuð kapítalisma-stefnunnar sem hefur verið rekin hér á landi undanfarin ár. Síðan bankarnir voru einkavæddir á spotprís, hafa þjónustugjöld hækkað og kjör til hins almenna viðskiptavinar lítið batnað. Nýju bankarnir, með frjálsar hendur, hafa hinsvegar eytt milljónum á milljónir ofan í dýrar auglýsingar, sent útsendara sína með samninga á lofti inn á vinnustaði og truflað fólk við vinnu sína til að fá það til að ganga í allskonar viðbótalífeyrissparnað og hvaðeina með óforskammaðri æsisölumennsku og borgað forstjórum sínum laun og starfslokasamninga sem voru upp á þannig upphæðir að þær rötuðu stöðugt í fréttir og vöktu almenna hneykslun almennings. En þótt þetta væri siðlaust, var það víst löglegt, þar sem að þetta voru fyrirtæki. Þetta var ekki mál almennings, bara hluthafa. Við eigum bankana, við megum gera hvað sem okkur sýnist. Ofurlaunin voru síðan afsökuð þannig að þetta væru svo miklar ábyrgðarstöður. En hvað gerist svo þegar harðna fer í ári? Allt í einu er bankinn alls ekki ósnertanlegur á einkamarkaði, allt í einu á ríkisvaldið, í umboði almennings að bjarga bankanum. Og hvað með ábyrgðina sem að bankastjórar og stærstu hluthafar fengu svo mikið greitt fyrir? Það er enginn dreginn til ábyrgðar! Þeir þurfa ekki að borga einn eyri til baka af allri sinni risnu, ofurlaunum né starfslokasamningum. Kannski fær ríkið þessa 84 milljarða til baka. Ef að bankinn verður vel rekinn. En ef að svo fer; er það ekki áfellisdómur yfir einkavæðinguna? Að undir frjálsum markaði hafi bankinn siglt í strand, bjargað um borð í ríkisskipið, sem að siglir bankanum síðan farsællegar heldur en einkaaðilum tókst það. Nú, svo gæti það farið svo að bankanum sé ekki viðbjargandi eða að reksturinn gangi ekki vel áfram, og þá er þetta glatað fé. Fé úr ríkissjóði. Skattfé ríkissjóðs. Hvað ætli það sé stór hluti almennings sem að er sáttur við að þurfa borga brúsann fyrir þessa einkavæðingartilraun sem að var bruðlað burt?

pólitík

Next post
Up