Apr 29, 2012 21:45
Vegna fræðistarfa minna þessa dagana les ég mér mikið til um flokka og fólk á vinstri væng íslenskra stjórnvalda á fyrri hluta seinustu aldar. Verandi vanur pólitískri orðræðu stjórnmála nútímans, hnýtur maður dálítið um það þegar Alþýðuflokkurinn, hófsami vinstriflokkurinn, boðaði þjóðnýtingu sem lausn alls vanda, skýlaust og stoltur. Maður hugsar með sér hvernig viðbrögðin væru ef Alþýðuflokkurinn, eða réttara sagt arftaki hans Samfylkingin, tæki þjóðnýtingu aftur upp í stefnuskrá sína. Líklega þætti forsvarsmönnum flokksins það hreinlega vandræðalegt ef það væri ekki nema bara minnst á að þau tilheyrðu flokki sem hefði einu sinni boðað jafn gamaldags og fáránlega stefnu og þjóðnýtingu.
En er það endilega víst að áætlunarhagfræði gömlu sósíalistanna sé endilega vitlausari heldur en hin klassíska frjálslynda hægri hagfræði? Sérstaklega í ljósi alheimsefnahagskreppunnar sem skall á fyrir skemmstu og sér enn ekki fyrir endann á.
Nýfrjálshyggjubylgjunni sem hóf innreið sína í vestræna pólitík af fullu afli með valdatöku Thatchers í Bretlandi, Reagans í Bandaríkjunum og hér á Íslandi með ríkistjórn Davíðs Oddssonar, tókst að jarða seinustu talsmenn þjóðnýtingar og rótækrar vinstri efnahagsstefnu. Með því að vera lengra til hægri (efnahagslega) heldur en íhaldsflokkar áratuganna á undan, dró frjálshyggjan allt pólitíska litrófið með sér til hægri. Þegar Verkamannaflokkurinn breski komst loks aftur til valda á tíunda áratugnum boðaði hann stefnu sem kallaðist Third Way, eða New Labour, og var þar endanlega fallið frá hugmyndum um þjóðnýtingu og allt slíkt. Alla tíð síðan hefur hver sá sem gagnrýnir markaðslausnir þurft að synda á móti straumnum og átt hættu á að vera álitinn Afturhaldskommatittur. Talsmenn nýfrjálshyggjunnar komu henni síðan til varnar þegar alheimskreppa var orðin staðreynd, sögðu að stefnan hefði ekki verið framkvæmd til fullnustu. Það hefðu verið ríkisafskipti og fyrirgreiðslupólitík (t.d. einkavinavæðing, í stað markaðsvæðingar?) sem hefði eitrað fyrir eðlilegri framgöngu frjálshyggjunnar. Það var fólkið sem klikkaði, en ekki stefnan. En það sama má segja um svo margar ágætar pólitískar stefnur, sem margar hverjar hljóma frábærlega ritaðar niður á blað. Hið fullkomna jafnrétti og sameign framleiðslutækjanna sem kommúnisminn boðaði hljómar bara rosa fínt í grunninn. Eins hljómar það voða vel að hinn frjálsi markaður muni ávalt leita jafnvægis og stuðla að almennri aukningu velferðar og hagvaxtar. En rétt eins og ofsóknar- og alræðisbrjálæði Stalíns tróð kommúnisma Sovétríkjanna endanlega ofan í svaðið, þá klikkaði framkvæmd nýfrjálshyggjunnar einnig vegna græðgi, klíkuskapar og bullandi spillingar. Sennilega er mannlegur breyskleiki slíkur að engin fögur hugmyndafræði getur gengið til lengdar án virks aðhalds.
En á sama tíma er aðgengi fólks að upplýsingum alltaf að aukast, kröfur um faglega stjórnsýslu verða æ skýlausari og fræðilegum kenningum um hinar ýmsu hliðar samfélagsins fleygir fram. Það er því von. Og hví ætti ekki að vera von fyrir sósíalismann rétt eins og fyrir nýfrjálshyggju? Ef þessar kenningar eru strípaðar alveg ofan í grunninn byggir sósíalisminn á áherslu á jöfnuð og heildarhyggju. Frjálshyggjan byggir á áherslu á frelsi og einstaklingshyggju. Sósíalísk hagfræði, án þess að ég ætli að þykjast vera sérfróður um hana, virðist hafa gengið út á trú á að stjórnvöld væru fær um að gera áætlanir (nokkur ár fram í tímann oft á tíðum) um hagstjórn sem væri alþýðunni til góða. Frjálslynd (klassísk) hagfræði byggir á ákveðnum forsendum um mannlegt eðli. Forsendur svosem þær að maðurinn sé í eðli sínu hámarkandi, eigingjarn og skynsamur. Vegna þessara eiginleika muni frjáls markaður sjálfvirkt hámarka hag meginþorra aðila hans. Persónulega hefur mér alltaf þótt þessar forsendur orka tvímælis, ekki síst vegna breyskleika mannsins, en einnig vegna óeigingjarnra eiginleika hans. Varla er hægt að útskýra t.d. alla sjálfboðaliðavinnu heimsins með þessum eiginleikum sem frjálshyggjan eignar manninum. Það sem meira er, að mínu mati eru þessar forsendur ekki bara empírískt vafasamar, heldur hugnast mér ekki að það þyki viðtekið viðhorf að maðurinn skuli vera eigingjarn. Er eigingirni ekki gert hátt undir höfði með því að gefa sér hana sem forsendu fyrir þeirri efnahagsstefnu sem við rekum?
Bæði sósalíska og frjálslynda hagfræði er erfitt að framkvæma vel. En hvor þeirra byggir á heilbrigðari grunni?
pólitík