Um fuglasöng

Mar 31, 2006 11:40

Þegar fuglarnir syngja þá eru þeir í raun og veru ekki að syngja. Þeir eru að tala. Við mannverurnar erum bara svo sein að fatta að við skiljum ekki tilganginn og höldum að þeir séu að syngja. Sum okkar ganga jafnvel svo langt að halda að þeir séu að syngja fyrir okkur. Svona eins konar ókeypis einkatónleikar. En svo er náttúrulega alls ekki. Þegar fugl syngur er hann að senda skilaboð út í heiminn, svona svipað og við gerum með látbragði eða svipbrigðum okkar, og það hefur ekkert að gera með það sem við köllum söng sem er eingöngu gert í fegurðarskyni. Fuglinn sem þú heyrir syngja á morgnana þegar þú opnar gluggann gæti til dæmis verið að segja: ,,Þetta er mitt svæði, ekki koma nálægt!” eða ,,Ég er að leita mér að maka, hver er til í tuskið?” eða jafnvel bæði. Hann gæti líka verið að syngja til að bjóða maka sinn velkominn aftur eftir að hafa farið í matarleit, eða vegna þess að annar fugl hafi byrjað að syngja nálægt, því það er alltaf betra að leysa málin án ofbeldis.
Fuglinn minn syngur mikið. Hann gefur líka frá sér ógrynnin öll af skrýtnum hljóðum, tísti og upphrópunum. Hann er einn í búrinu, svo hann er orðinn mjög háður okkur heimilisfólkinu og syngur hástöfum þegar annað hvort okkar kemur heim, eða fer á fætur á morgnana. Með þeim afleiðingum að við byrjum oft daginn á að tala við fuglinn, gefa honum að borða eða eitthvað álíka. Það má því segja að söngur hans hafi svipuð áhrif á okkur og mjálm kattarinns eða gelt hundsins, hann er að senda okkur skilaboð um að hann sé svangur, þyrstur eða vanti einfaldlega félagsskap. Það skondnasta við þetta allt saman er að þegar hann heyrir mannlegan söng, byrjar hann oft að syngja líka. Ég held að það sé vegna þess að hann misskilji söng okkar alveg jafn mikið og við misskiljum söng hans. Hann heldur að einhver sé að senda honum skilaboð og svarar einfaldlega í sömu mynt!

íslenskt

Previous post
Up